Enski boltinn

Capello nýtur stuðnings þeirra stóru

Wenger og Ferguson styðja ráðningu Capello
Wenger og Ferguson styðja ráðningu Capello NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson og Arsene Wenger eru báðir fylgjandi því að enska knattspyrnusambandið ráði Ítalann Fabio Capello landsliðsþjálfara Englendinga. Capello þykir nú líklegastur til að taka við starfinu eftir að Jose Mourinho datt út úr myndinni og hann mun eiga fund með sambandinu á morgun.

Knattspyrnusambandið ráðfærði sig við bæði Ferguson og Wenger í þjálfaraleitinni og hann virðist njóta stuðnings þeirra beggja - þó þeir hafi báðir verið á því að best væri að fá heimamann í starfið.

"Þú verður að vera á ákveðnum aldri, með sterka skapgerð og flotta ferilskrá ef þú ætlar að taka við landsliði og Capello hefur þetta allt saman. Arsene Wenger hefur rétt fyrir sér hvað það varðar að best væri að fá Englending í starfið og það myndi enska þjóðin líka helst vilja. En það er mikilvægast að finna mann sem getur komið liðinu á sigurbraut og slíkan mann er erfitt að finna á Englandi," sagði Ferguson.

Arsene Wenger er nokkuð sammála erkióvini sínum á knattspyrnuvellinum þegar kemur að skoðunum þeirra á ítalska þjálfaranum.

"Ég hef þekkt Fabio lengi og hann er mjög álitlegur kostur. Menn þyrftu ekki að hafa áhyggjur af honum á tæknilega sviðinu því hann er sterkur maður með sterka skapgerð og veit nákvæmlega hvað hann vill gera. Hann er sigurvegari og trúr sínum aðferðum. Hann þarf að geta synt á móti straumnum til að stýra enska landsliðinu en hann hefur sýnt að hann getur það," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×