Enski boltinn

Dýrmætur sigur hjá Tottenham

Dimitar Berbatov átti frábæran leik hjá Tottenham í dag og hér er hann í baráttu við Micah Richards hjá City
Dimitar Berbatov átti frábæran leik hjá Tottenham í dag og hér er hann í baráttu við Micah Richards hjá City NordicPhotos/GettyImages

Tottenham vann í dag þýðingarmikinn sigur á Manchester City 2-1 í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Þá lyfti Bolton sér af fallsvæðinu með sannfærandi sigri á Wigan 4-1.

Pascal Chimbonda kom heimamönnum í Tottenham yfir í fyrri hálfleik með vægast sagt umdeildu marki þegar hann blakaði boltanum í netið eftir fyrirgjöf og leit þar af leiðandi út fyrir að vera rangstæður.

Varamaðurinn Rolando Bianchi hjá City setti svip sinn á leikinn og skoraði aðeins nokkrum augnablikum eftir að honum var skipt inn á. Hafi City ætlað sér að stela sigrinum eftir það urðu þær vonir að engu þegar Stephen Ireland lét reka sig af velli fyrir glórulausa tæklingu á Kóreumanninn Lee. Skömmu síðar nýtti Tottenham sér svo liðsmuninn þegar varamaðurinn Jermaine Defoe þrumaði boltanum í netið eftir að fyrirgjöf hafði hafnað í stönginni. Defoe fór illa með tvö dauðafæri undir lok leiksins og það sama gerði Darren Bent í fyrri hálfleiknum.

Þetta var aðeins þriðji sigur Tottenham í deildinni í vetur og nægði hann til að koma liðinu í 13. sæti deildarinnar, en City er í 6. sætinu. 

Bolton var á skotskónum í grannaslag sínum gegn Wigan og sigraði 4-1. Bæði lið hafa verið í miklum erfiðleikum á leiktíðinni, en Bolton er bú komið af helsta hættusvæðinu í deildinni eftir sigurinn.

Paul Scharner opnaði markareikninginn með klaufalegu sjálfsmarki á annari mínútu þegar hann skallaði knöttinn í eigið net, en Denny Landzaat jafnaði metin fyrir Wigan. Nicolas Anelka brenndi af vítaspyrnu hjá Bolton en bætti fyrir það með glæsilegri sendingu á Kevin Nolan sem skoraði annað mark Bolton. Það voru svo mörk frá Anelka og Kevin Davis sem kláruðu leikinn.

Bolton lyfti sér í 14. sæti deildarinnar með sigrinum en Wigan er í því 19. og næstneðsta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×