Enski boltinn

Auðveldur sigur hjá United

Carlos Tevez skoraði tvö fyrir United í dag.
Carlos Tevez skoraði tvö fyrir United í dag. AFP

Manchester United vann auðveldan 4-1 sigur á Derby í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar aðeins leik Reading og Liverpool er ólokið.

Carlos Tevez skoraði tvö mörk fyrir United, Christiano Ronaldo eitt úr vafasamri vítaspyrnu og gamla brýnið Ryan Giggs skoraði sitt 100. mark fyrir félagið. Steve Howard náði að koma gestunum á blað og var það fyrsta mark Derby á útivelli í háa herrans tíð. United er aðeins einu stigi á eftir Arsenal sem er á toppi deildarinnar.

Chelsea þurfti að hafa talsvert fyrir því að leggja Sunderland á Stamford Bridge. Andriy Shevchenko kom heimamönnum á bragðið í fyrri hálfleik og Frank Kampard innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu eftir að Alex var togaður niður í teignum. Liam Miller fékk að líta rauða spjaldið hjá Sunderland.

Everton hrökk í gang í síðari hálfleik í viðureign sinni gegn Fulham á Goodison Park, en þar skoraði framherjinn Yakubu glæsilega þrennu og tryggði þeim bláklæddu 3-0 sigur eftir að staðan hafði verið jöfn í hálfleik.

Þá vann Newcastle mikilvægan 2-1 heimasigur á Birmingham þar sem Habib Beye skoraði sigurmark heimamanna í uppbótartíma. Cameron Jerome kom gestunum yfir í fyrri hálfleik en Obafemi Martins jafnaði úr víti fyrir hlé. Þetta var nokkuð sár niðurstaða fyrir lærisveina Alex McLeish, sem voru síst lakari aðilinn gegn frekar daufum Newcastle-mönnum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×