Enski boltinn

Leikmanni Watford gæti verið vísað úr landi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Al Bangura á hér nokkur vel valin orð við Wayne Rooney, leikmann Manchester United.
Al Bangura á hér nokkur vel valin orð við Wayne Rooney, leikmann Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Alhassan Bangura, leikmaður á mála hjá Watford í Englandi, á það á hættu að verða vísað úr landi þar sem engin opinber gögn virðast til um tilvist hans.

Stjóri liðsins, Aidy Boothroyd, mun í næstu viku fara fyrir dómstóla þar sem hann mun tala máli hans til stuðnings.

Bangura er nítján ára og kemur frá Afríkuríkinu Sierra Leone. Hann á engin gögn frá heimalandi sínu, hvorki vegabréf né önnur skilríki.

Þegar hann kom til landsins leitaði hann hælis sem pólitískur flóttamaður en yfirvöld í Bretlandi segja nú að staða hans í kerfinu hafi breyst þegar hann varð átján ára gamall.

Heimildamaður breska dagblaðsins Telegraph sagði að það væri afar sorglegt ef breska skriffinskan verði honum að falli eftir að hafa upplifað miklar raunir í sínu heimalandi.

„Faðir hans var myrtur og sjálfur slapp hann naumlega úr klóm vúdú-trúarhóps í Sierra Leone. Ef hann verður sendur aftur til Afríku mun það eyðileggja feril efnilegs knattspyrnumanns og sundra fjölskyldu hans hér. Það er í raun að það sé svo illa farið með einstakling sem borgaði sjálfur 120 þúsund pund í skatta á síðasta ári."

Bangura fæddist í Freetown í Sierra Leone árið 1988. Þegar faðir hans var myrtur flúði hann landið og fór til Gíneu. Þar hitti hann franskan ríkisborgara sem hugðist selja Bangura í kynlífsþrælkun. Þegar maðurinn fór með Bangura til Englands leitaði hann hælis.

Hann var uppgötvaður af útsendara Watford þar sem hann lék sér í fótbolta með félögum sínum og gekk til liðs við unglingaakademíu félagsins. Hann lék sinn fyrsta leik með Watford sautján ára gamll og hefur síðan þá leikið 33 leiki með félaginu og skorað í þeim eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×