Enski boltinn

Tottenham ætlar að stækka heimavöllinn

White Hart Lane er að verða of lítill fyrir Tottenham
White Hart Lane er að verða of lítill fyrir Tottenham NordicPhotos/GettyImages

Enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham hefur nú leitað aðstoðar hjá manninum sem stóð á bak við byggingu Emirates vallarins hjá Arsenal með það fyrir augum að stækka White Hart Lane, heimavöll félagsins.

Hugmyndir eru uppi um að stækka White Hart Lane svo völlurinn taki 52,000 manns í sæti og hefur Tottenham leitað til Tony Winterbottom hjá London Development Authority með aðstoð við verkefnið.

Talið er að verkefnið muni kosta Tottenham um 300 milljónir punda og að helmingur þeirrar upphæðar yrði fenginn að láni. Þetta myndi líklega þýða að Tottenham þyrfti að spila utan White Hart Lane í tvö ár og þá kæmi hugsanlega til greina að fá afnot af heimavelli West Ham á meðan.

Forráðamenn Tottenham eru sagðir hafa sett sig í samband við ráðamenn á Wembley um að fá hugsanlega að spila þar á meðan, en hugmyndum félagsins um að fá að flytja þangað varanlega var hafnað á sínum tíma og þá er mjög dýrt að fá þjóðarleikvanginn leigðan.

Sagt er að til greina komi að Tottenham spili minni leiki sína á Upton Park hjá West Ham - en þá stærri - eins og grannaslaginn við Arsenal - á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×