Innlent

Vildi óska þess að geta boðið bláan Opal

Gunnar Valþórsson skrifar
Það eru margir sem sakna bláa Opalsins.
Það eru margir sem sakna bláa Opalsins.

Blár Opal á sér greinilega marga aðdáendur þó nokkur ár séu liðin frá því framleiðslu hans var hætt. Á Netsamfélaginu Facebook hefur nú verið stofnuð síða þar sem Nói og Síríus er hvatt til að hefja sölu á ný. Tæplega tvöþúsund manns, hvaðanæva að úr heiminum, hafa skráð sig á síðuna. Gunnar B. Sigurgeirsson, markaðsstjóri Nóa Síríus segir erfitt að segja til um hvort von sé á endurkomu sælgætisins en hann vonar það besta.

„Þessar áskoranir eru okkur vissulega hvatning en ég veit ekki hvort okkur takist að endurvekja bláa Opalinn," segir Gunnar. Hann segir ástæðuna fyrir því að blár Opal hafi farið úr umferð vera þá að framleiðslu var hætt á ákveðnu bragðefni. „Það var þetta tiltekna bragðefni sem gaf þetta sérstaka bragð," segir Gunnar.

„Við gerðum ýmsar tilraunir og eydddum talsverðum fjármunum í þróunarvinnu sem miðaði að því að búa þetta bragð til með öðrum ráðum en þær tilraunir báru bara því miður ekki árangur."

Því hefur verið haldið fram að ástæðan fyrir því að gottið var tekið af markaði hafi verið sú að það innihélt svefnlyfið klóróform. „Það er rétt að það var klóroform í bláum Opal og við þyrftum undanþágu frá reglum til þess að fá að nota það, en það er fyrst og fremst þetta ákveðna bragðefni sem gerir útslagið, ekki klóróformið," segir Gunnar.

Gunnar segir að í stað þess að bjóða upp á Bláan Opal með einhverju „gervi" bragði hafi Nói því ákveðið að hætta framleiðslunni alfarið. „En þessi mikli áhugi sem virðist vera fyrir því að blár Opal snúi aftur er okkur vissulega hvatning og við söknum þess mjög að geta ekki boðið upp á þetta, þannig að hver veit nema okkur takist að ráða gátuna um bláa Opalinn," segir Gunnar B. Sigurgeirsson, markaðstjóri hjá Nóa Síríus.

Hér má skrá sig á listann á Facebook.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×