Fótbolti

Eyjólfur: Þurfum að skerpa skyndisóknirnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eyjólfur Sverrisson á blaðamannafundinum í dag.
Eyjólfur Sverrisson á blaðamannafundinum í dag. Mynd/E. Stefán

Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari segir að markmið sitt sé að vinna næstu leiki landsliðsins, gegn Lettum og Liechtenstein.

„Okkar markmið fyrir þessa leiki er að halda sama dampi og hefur verið í síðustu leikjum. Liðið er mjög samstillt og það er mikill kraftur í því. Við höfum trú á því að við getum unnið báða þessa leiki,“ sagði Eyjólfur.

Hann segist hafa notað tímann vel síðan að síðustu landsleikjum lauk til að skoða bæði leikmenn og greina leikina gegn Spáni og Norður-Írum.

„Það sem er helst er að við þurfum að útfæra okkar skyndisóknir betur. Við þurfum að vera fljótari fram á við þegar við vinnum boltann á okkar vallarhelmingi.“

Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á sem varamaður í leiknum gegn Norður-Írum í síðasta mánuði og var þá nýbúinn að ná sér góðum eftir meiðsli.

Hann hefur hins vegar ekkert spilað með Barcelona síðan þá. Eyjólfur hefur vissar áhyggjur af því.

„Hans vegna hef ég áhyggjur af því. Það er auðvitað betra ef menn eru í leikformi. En ég talaði við hann í morgun og hann er heill heilsu. Hann æfði í dag og hefur líka æft aukalega til að halda sér í sem bestu formi.“

Eyjólfur hefur áður sagt að hann velji helst ekki leikmenn nema þeir séu að spila með sínu liði. Þrátt fyrir allt segir hann að sömu reglur gildi um Eið Smára og aðra leikmenn landsliðsins.

„Það var ekki erfitt að velja hann í liðið. Eiður er einfaldlega einn af okkar bestu leikmönnum og getur nýst okkur vel.“

Indriði Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason koma inn í hópinn sem telur samtals 22 leikmenn. Eyjólfur segir að hópurinn sé svo stór þar sem margir leikmenn eigi það á hættu að vera í banni gegn Liechtenstein fari svo að þeir fái gult spjald gegn Lettum.

Hermann Hreiðarsson verður í banni gegn Lettum og mun Hjálmar Jónsson líklega koma til með að leysa stöðu vinstri bakvarðar í þeim leik.

„Indriði kemur inn þar sem margir eru á hættusvæði. Hjálmar hefur spilað vel í stöðu vinstri bakvarðar með Gautaborg og verður líklega fyrsti kostur í þá stöðu fyrir Hermann.“

Stuðningur áhorfenda hefur verið afar góður í síðustu heimaleikjum. Leikurinn gegn Lettum verður síðasti heimaleikur Íslands í undankeppni EM 2008 og vonast Eyjólfur eftir áframhaldandi góðum stuðningi.

„Tólfan hefur verið svakalega öflug og verið til fyrirmyndar. Leikmenn hafa rætt um hversu gaman það er að áhorfendur eru öflugir. Það er líka greinilegt að fólk er mætt á völlinn til að skemmta sér og ég vona að það verði áfram góð stemning á leikjum liðsins.“

Samningur Eyjólfs við KSÍ er að renna út en hann hugsar ekki lengra en til næsta leiks.

„Við sjáum til hvað gerist eftir keppnina. Hugur minn stendur eingöngu til að vinna næsta leik, það er ekkert flóknara en það.“ 


Tengdar fréttir

Tvær breytingar á landsliðshópnum

Eyjólfur Sverrisson tilkynnti í dag val sitt á landsliðshópnum sem mætir Lettlandi og Liechtenstein í undankeppni EM 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×