Íslenski boltinn

Miðasala hafin á Ísland - Lettland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nokkrir kátir stuðningsmenn Íslands á leiknum gegn Spáni í síðasta mánuði.
Nokkrir kátir stuðningsmenn Íslands á leiknum gegn Spáni í síðasta mánuði. Mynd/Eyþór

Miðasala á síðasta heimaleik íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2008 er nú hafin.

Ísland mætir Lettlandi en bæði lið hafa varla staðið undir væntingum í riðlinum. Það er því mikið í húfi upp á stoltið að gera en bæði lið kappkosta við að enda keppnina á jákvæðum nótum.

Bæði lið mættu Norður-Írum og Spánverjum í síðasta mánuði. Ísland fékk fjögur stig úr þeim leikjum en Lettland þrjú.

Ísland byrjaði á því að gera 1-1 jafntefli við Spán og vinna svo Norður-Íra, 2-1. Báðir leikirnir fóru fram á Laugardalsvelli.

Lettar unnu Norður-Íra, 1-0, á sínum heimavelli en töpuðu svo, 2-0, fyrir Spánverjum á útivelli.

Ísland tapaði 1-0 fyrir Spáni á útivelli fyrr á árinu.

Ísland er í fimmta sæti F-riðils undankeppninnar með átta stig en Lettar í því sjötta með sex stig. Lettar eiga þó leik til góða.

Leikurinn er þó gríðarlega mikilvægur því allur árangur telur, bæði þegar heimslisti FIFA er reiknaður út sem og styrkleikaröðun fyrir næstu undankeppni stórmóts.

Eins og alltaf er miðaverð í forsölu fimm hundruð krónum ódýrara en á leikdag.

Miðaverð á rauða svæðið er 3.500 krónur í forsölu. Það eru sætin í suðurstúkunni, fyrir utan ystu stúkurnar. Þær stúkur mynda græna svæðið og er miðaverð á það 1.000 krónur í forsölu.

Sæti í norðurstúkunni kosta 2.500 krónur í forsölu.

Miðasala er hafin á miði.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×