Enski boltinn

Curbishley óttast erlenda eigendur

Alan Curbishley er ekki smeykur við að tjá sig
Alan Curbishley er ekki smeykur við að tjá sig NordicPhotos/GettyImages

Alan Curbishley, knattspyrnustjóri Íslendingaliðs West Ham, segist óttast síaukin afskipti erlendra eigenda af liðum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Curbishley starfar sjálfur hjá erlendum eigendum - Íslendingunum Björgólfir Guðmundssyni og Eggerti Magnússyni.

Curbishley lætur þessi orð falla skömmu eftir að breytingar voru gerðar í brúnni hjá West Ham þar sem Eggert Magnússon ætlar nú að skipta sér minna af daglegum rekstri félagsins.

"Það er staðreynd að þeir menn sem eru að taka við félögum hér á Englandi eiga sér flestir enga sögu í knattspyrnunni í landinu. Doug Ellis hjá Aston Villa og fjölskyldan sem átti Liverpool voru t.d. fólk sem lifði og hrærðist í knattspyrnu alla tíð - þetta voru stuðningsmenn liðanna," sagði Curbishley.

Hann segist gera sér fulla grein fyrir að þessar aðstæður sem hann lýsir eigi einmitt við hjá West Ham í dag.

"Ég hef áhyggjur af því - og þá geri ég mér grein fyrir að þetta á líka við hjá West Ham - að þessir nýju eigendur sem skilja ekki fullkomlega hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í knattspyrnunni eigi ef til vill erfitt með að sætta sig við að hlutirnir gangi ekki upp strax. Mér sýnist sem þolinmæði eigenda sé alltaf að verða minni og minni og pressan á að ná árangri sé alltaf að aukast," sagði Curbishley.

Hann á ekki von á því að breytingarnar í stjórn West Ham muni þýða miklar breytingar á skipulagi hjá félaginu. "Það hefur ekki mikið breyst hjá okkur. Eggert verður enn í stjórninni og B.G. (Björgólfur Guðmundsson) mun verða meira með puttana í hlutunum," sagði Curbishley í samtali við Daily Mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×