Enski boltinn

Mourinho: hvað gerðist?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mourinho og Terry munu hafa rifist heiftarlega í vikunni.
Mourinho og Terry munu hafa rifist heiftarlega í vikunni. Nordic Photos / Getty Images

Talið er að ósætti John Terry og Jose Mourinho hafi orðið til þess að Mourinho fór frá Chelsea.

The Sun greinir frá þessu í morgun.

Mourinho mun hafa verið óánægður með frammistöðu Terry í síðustu leikjum og spurt læknalið félagsins hvort þeir hefðu skýringu á því.

Terry brást ókvæða við þegar hann heyrði af þessu og rifust þeir heiftarlega um málið, bæði fyrir og eftir jafnteflisleikinn við Rosenborg í Meistaradeildinni í fyrrakvöld.

"Fregnir af rifrildi þeirra bárust til forráðamanna félagsins sem höfðu áhyggjur af því að Mourinho væri að glata trausti leikmanna," hefur Sun eftir ónefndum heimildamanna innan raða Chelsea.

Því hefur líka verið haldið fram að koma Michael Ballack og Andryi Shevchenko til félagsins hafi verið í óþökk Mourinho. Það hafi verið upphafið að deilu Mourinho við Roman Abramovich, eiganda Chelsea.

Avram Grant, nýráðinn eftirmaður Mourinho, kom til félagsins í sumar og var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála. Mourinho mun hafa sett sig á móti því og skipað honum að halda sig frá liði sínu.

Grant og Abramovich munu vera miklir vinir. Abramovich hafi hreinlega beðið eftir tækifærinu að koma Grant að.

The Sun segir að Abramovich hafi krafist svara við þriggja spurnina eftir jafnteflið við Rosenborg.

1. Af hverju spilar liðið undir stjórn Mourinho svo leiðinlegan fótbolta?

2. Af hverju tekst liðinu ekki að skora mörk?

3. Af hverju komu aðeins 24 þúsund áhorfendur á leikinn?

Abramovich hefur skýrar áætlanir fyrir félagið sitt. Á tíu árum á liðið að verða Evrópumeistari tvisvar.

Mourinho hefur tvívegis stýrt Chelsea í undanúrslit Meistaradeildarinnar en ekki komist í úrslitin.

Svo virðist sem að Abramovich hafi ekki treyst Mourinho til að stýra liðinu til sigurs í Meistaradeildinni í ár.

Sjá einnig:

Jose Mourinho hættur hjá Chelsea

Grant tekur við Chelsea

Ferill Mourinho í máli og myndum

„Mourinho fær 3,2 milljarða“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×