Enski boltinn

Jose Mourinho hættur hjá Chelsea

The Special One - Ljóst er að enska úrvalsdeildin verður ekki sú sama án Jose Mourinho
The Special One - Ljóst er að enska úrvalsdeildin verður ekki sú sama án Jose Mourinho NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho hefur sagt starfi sínu lausu sem knattspyrnustjóri Chelsea. Breska ríkissjónvarpið greindi frá þessu í kvöld og hafa stórtíðindi nú verið staðfest af forráðamönnum félagsins.

Sögusagnir hafa lengi verið á kreiki um að samband Mourinho við stjórn Chelsea væri komið á mjög viðkvæmt stig. Chelsea hafði ekki náð að vinna sigur í þremur síðustu leikjum í öllum keppnum og talið er að forráðamenn félagsins hafi verið afar ósáttir við jafntefli liðsins á heimavelli gegn Rosenborg í Meistaradeildinni í gærkvöld.

Mourinho var kallaður á neyðarfund með framkvæmdastjóranum Peter Kenyon, stjórnarformanninum Bruce Buck - auk Eugene Tenenbaum - hægri hönd Roman Abramovich, eiganda Chelsea. Það var svo í kvöld sem tíðindin voru tilkynnt formlega á heimasíðu Chelsea, en Mourinho var sagður hafa sett sig í samband við nokkra af leikmönnum liðsins strax eftir að þetta lá fyrir. Þar á meðan var fyrirliðinn John Terry.

Mourinho hefur verið afar sigursæll með Chelsea síðan hann tók við árið 2004 og hefur unnið alla titla sem í boði eru á Englandi. Mourinho hefur tvisvar verið kjörinn þjálfari ársins á Englandi og segja má að hann hafi staðið undir nafninu "sá einstaki" sem hann gaf sjálfum sér svo eftirminnilega þegar hann kom til landsins á sínum tíma.

Hann tók við Chelsea í júní 2004 og gerði liðið að Englandsmeistara tvö ár í röð. Undir hans stjórn vann liðið báða bikarmeistaratitlana á Englandi og tapaði ekki einum einasta deildarleik á heimavelli.

Næsti leikur Chelsea í deildinni er gegn Manchester United á sunnudaginn.

Sjá einnig:

Grant tekur við Chelsea

Ferill Mourinho í máli og myndum

Mourinho: hvað gerðist?

„Mourinho fær 3,2 milljarða“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×