Enski boltinn

Leikmaður 6. umferðar: Emmanuel Adebayor

Emmanuel Adebayor hefur slegið í gegn hjá Arsenal á tímabilinu.
Emmanuel Adebayor hefur slegið í gegn hjá Arsenal á tímabilinu. Nordic Photos / Getty Images

Framherjinn skæði hjá Arsenal, Emmanuel Adebayor, er leikmaður 6. umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Arsenal á Tottenham sem kom liðinu á topp deildarinnar.

Síðan að Adebayor kom til félagsins frá Monaco í janúar í fyrra hafa margir haft sínar efasemdir að hann væri nægilega góður fyrir Arsenal. Sérstaklega hvort hann gæti komist nálægt því að fylla í það skarð sem Thierry Henry skildi eftir þegar hann fór til Barcelona.

"Sumir höfðu símar efasemdir, það er rétt," sagði Arsene Wenger, stjóri Arsenal, um málið. "Hins vegar er það augljóst að það vantar heilmikið í liðið þegar hann er fjarverandi. Stundum olli hann vonbrigðum þar sem hann átti það til að misnota góð færi en á laugardaginn sýndi hann að hann getur skorað úr ótrúlegustu færum. Hann er til að mynda stöðugt ógnandi í loftinu."

Adebayor ólst upp hjá Metz í Frakklandi en hann gekk til liðs við félagið árið 1999, þá fimmtán ára gamall. Hann skoraði 17 mörk í 35 leikjum fyrir félagið tímabilið 2003-4 og hefði getað farið til Arsenal eða Juventus þá. Hann kaus hins vegar að fara til Monaco þar sem hann öðlaðist dýrmæta reynslu í Meistaradeild Evrópu.

Monaco komst vorið 2004 í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og skoraði Adebayor tvö mörk í tíu leikjum í Meistaradeildinni fyrir félagið það tímabilið.

Hjá Arsenal sóttist hann eftir því að fá númerið 25 sem Kanu bar áður fyrr. Í viðtali við heimasíðu Arsenal sagði Adebayor að hann hafi dýrkað Kanu á sínum yngri árum og hefur hann meira að segja verið kallaður "Baby Kanu" af stuðningsmönnum Arsenal.

Wenger hefur til að mynda sagt að Adebayor væri eins og Kanu en byggi yfir meiri hraða.

Nafn: Emmanuel Adebayor

Fæddur: Lomé á Tógó, 26. febrúar 1984

Félög: Metz, AS Monaco og Arsenal.

Númer: 25




Fleiri fréttir

Sjá meira


×