Enski boltinn

Hjónabandið breytti Beckham

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að David Beckham hafi breyst til hins verra þegar hann giftist kryddpíunni Victoriu árið 1999. Hann segir Beckham hafa verið atvinnumann fram í fingurgóma áður en hann tileinkaði sér stjörnulífið.

"David var aldrei til vandræða fyrr en hann gifti sig. Hann átti það til að vera á æfingum fram á nótt og var frábær ungur maður. Það var erfitt fyrir hann að taka skrefið inn í að verða ofurstjarna og eftir að hann gifti sig var líf hans aldrei hið sama. Hann er orðinn svo frægur núna að knattspyrnan er orðin aukaatriði. Beckham var alltaf í besta mögulega formi en það breyttist eftir að hann fór í poppið með konunni. Það var eins og hann breyttist í aðra manneskju," sagði Ferguson.

Gamli þjálfarinn hans er heldur ekki á því að Beckham nái að breyta knattspyrnunni í Bandaríkjunum. "Stór nöfn í knattspyrnunni hafa áður farið til Bandaríkjanna og nægir þar að nefna menn eins og Pele, Cryuff og Beckenbauer. Þessir menn náðu ekki að breyta knattspyrnunni þar til góða og því á ég erfitt með að sjá að þetta verði eitthvað öðruvísi með David. Það er nú einu sinni þannig að bestu leikmennirnir sem koma upp í Bandaríkjunum fara allir úr landi til að spila eins og í mörgum öðrum löndum," sagði Ferguson og benti á að landafræðin gerði Bandaríkjamönnum líka erfitt fyrir.

"Svo er Ameríka líka svo stór að það gerir stuðningsmönnum það ókleift að fylgja liðum sínum í útileiki. Það getur því aldrei myndast jafn góð stemming í Bandaríkjunum og t.d. á Englandi," sagði Ferguson. "Menn gætu auðvitað skipt landinu upp í riðla, en það eru bara ekki nógu mörg lið til að gera það."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×