Innlent

Hyldýpisgjá milli kirkju og þjóðar virði Þjóðkirkjan ekki niðurstöðuna

Björn Gíslason skrifar
Óskar Óskarsson, prestur í Akureyrarkirkju, er afar sáttur við að meirihluti presta vilji staðfesta samvist samkynhneigðra.
Óskar Óskarsson, prestur í Akureyrarkirkju, er afar sáttur við að meirihluti presta vilji staðfesta samvist samkynhneigðra.
Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Akureyrarkirkju, fagnar niðurstöðu í könnun á afstöðu presta til heimildar til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Hann segir gott að vilji presta sé kominn fram og segir að hyldýpisgjá myndist milli þjóðar og kirkju verði ekki farið eftir niðurstöðu könnunarinnar og prestum veitt þessi heimild. Formaður Prestafélagsins býst við að málið verði til lykta leitt á Kirkuþingi um miðjan október.

Óskar var annar þeirra presta sem lagði til á Prestastefnu á Húsavík í vor að könnunin yrði gerð eftir að tillögu um að prestum Þjóðkirkjunnar yrði heimilað að vera lögformlegir vígslumenn staðfestrar samvistar var vísað til kenninganefndar kirkjunnar. Töluverðar deilur spruttu á Prestastefnunni vegna málsins og Óskar segir að ekki hafi allir verið á eitt sáttir um könnunina. Hún sýnir að um tveir þriðju presta séu fylgjandi því að veitt verði heimild til þess að staðfesta samvist samkynhneigðra. Fjórðungur starfandi presta er því andvígur.

„Við töldum okkur vita þetta og því kemur þetta ekki á óvart. Með þessari könnun vildum við sýna fram á að meirihluti presta sé fylgjandi breytingunum. Það er alltaf vont ef andstæðingarnir geta í skjóli þagnarinnar haldið því fram að ekki sé vilji til breytinga. Nú er þetta hins vegar morgunljóst og ég fagna því að þetta er lýðum kunnugt," segir Óskar.

Erfitt fyrir Kirkjuþing að hunsa niðurstöðuna

Í könnuninni var spurt hvort prestar væru fylgjandi því að Kirkjuþing samþykkti að veita prestum þessa heimild sem bendir til þess að ætlunin sé að leiða málið til lykta á Kirkjuþingi sem haldið verður um miðja október. Kirkjuþing er nokkurs konar löggjafarsamkunda kirkjunar og fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Þar eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands með málfrelsi og tillögurétt.

Óskar segir að það verði mjög erfitt fyrir Kirkjuþing að ganga fram hjá niðurstöðum þessarar könnunar. „Ef það gerist þá er eitthvað mikið að," segir Óskar og bendir á hér séu á ferðinnin eindregin skilaboð frá prestum. „Ef Kirkjuþing blæs á þetta þá tel ég að það hafi mjög alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir samband Þjóðkirkjunnar og almennings og samband fulltrúa presta á Kirkjuþingi og presta í landinu," segir Óskar og talar um að myndast geti hyldýpisgjá milli þjóðar og kirkju.

Ekki fullnaðarsigur

Óskar segir þó að hér sé ekki um fullnaðarsigur að ræða því hann vilji taka skrefið til fulls. Hér sé rætt um að veita prestum heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra en að hans mati komi ekkert annað til greina en að breyta hjúskaparlögum svo samkynhneigðir geti gengið í hjónaband líkt og gagnkynhneigðir. „Annaðhvort erum við jöfn fyrir Guði og mönnum eða þá við búum til einhvers konar flokkun," segir Óskar. „Hjónaband á að vera öllum opið óháð kynhneigð."

Málið til lykta leitt á Kirkjuþingi

Séra Ólafur Jóhannsson, prestur í Grensáskirkju og formaður Prestafélags Íslands, segir gott að niðurstaða sé komin í málið. Hann býst við því að málið verði tekið fyrir á Kirkjuþingi í október eins og biskup Íslands hafi lýst yfir fyrir nokkrum misserum. Aðspurður segist hann ekki hafa verið fylgjandi hugmyndinni að veita prestum heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra en segist hafa beitt sér fyrir því að könnun á afstöðu presta færi fram. „Það hefur ekki verið neitt leyndarmál að ég er andvígur þessu en málið hefur væntanlega sinn gang innan kirkjunnar," segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×