Innlent

Þvættuðu milljarða af illa fenginni raf­mynt á Ís­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Uppruni illa fengins bitcoin var falinn með peningaþvætti. Íslenskir netþjónar voru notaðir til þess.
Uppruni illa fengins bitcoin var falinn með peningaþvætti. Íslenskir netþjónar voru notaðir til þess. Vísir/EPA

Ein af stærstu peningaþvottastöðvum heims er sögð hafa leigt netþjóna frá íslensku hýsingarfyrirtæki til þess að þvætta tæpa 25 milljarða króna af alla fenginni rafmynt. Íslenska lögreglan aðstoðaði bandarísku alríkislögregluna við að upplýsa peningaþvættið.

Morgunblaðið segir frá því að tveir menn, búsettir í Bandaríkjunum og Portúgal, hafi verið handteknir og játað sök í málinu. Peningaþvottastöðin sem þeir áttu þátt í nefnist Samourai Wallet og lýsir Steinarr Kr. Ómarsson, lögreglufulltrúi, henni sem annarri af tveimur stærstu slíkum stöðvum með rafmyntina bitcoin í heimi.

Tveir fulltrúar alríkislögreglunnar FBI komu til landsins vegna rannsóknarinnar. Þeir tóku meðal annars þátt í að taka niður vefþjón sem hýsti peningaþvættið og afrituðu hann til að komast yfir sönnunargögn.

Steinarr segir við blaðið að mál af þessu tagi séu ekki algeng hér á landi en þeim hafi fjölgað. Hér á landi sé hýsingarþjónusta og ýmis konar netþjónusta auk þess sem hugað sé að mikilli uppbyggingu gagnavera fyrir gervigreind.

„Hér eru flottir innviðir og því fylgja góðir hluti en það vonda leynist inn á milli,“ segir hann við Morgunblaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×