Innlent

Ríkislögreglustjóri íhugar að taka rafbyssur í notkun

Ríkislögreglustjóraembættið íhugar nú að taka í notkun fimmtíu þúsund volta rafbyssu til reynslu sem getur sent rafbylgjur úr allt að 10 metra fjarlægð. Þegar skotið er úr byssunni lamast viðkomandi í fimm sekúndur og lyppast niður.

Í nýlegri rannsókn sem unnin var fyrir ríkislögreglustjóraembættið kom meðal annars í ljós að hluti lögreglumanna verður fyrir ofbeldi í starfi sínu. Embættið kannar nú hvort notkun rafbyssa gæti komið í veg fyrir að lögreglumenn hljóti alvarleg meiðsl í störfum sínum og auðveldað þeim að kljást við afbrotamenn.

Spennan á byssunni er fimmtíu þúsund volt. Hún getur sent rafbylgjur úr allt að 10 metra fjarlægð og skýtur út tveimur þráðum sem lenda á líkama þess sem skotið er á og gefa honum raflost. Rafbylgjurnar lama tauga og vöðvastarfsemi viðkomandi í fimm sekúndur og hann fellur í jörðina.

Á vef fyrirtækisins taser.com sem framleiðir byssurnar kemur fram að rannsóknir sýni að enginn hafi skaðast alvarlega við raflost úr byssunni. Sjö þúsund löggæslustofnanir í 40 löndum víða um heim noti byssuna með góðum árangri og hún hafi dregið verulega úr meiðslum hjá lögreglu-og afbrotamönnum. Páll ítrekar að ekki hefur enn verið ákveðið hvort byssurnar verði teknar í notkun fyrr en að vel athuguðu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×