Innlent

Flugmenn íhuga að grípa til harðra aðgerða gegn Icelandair

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Félag Íslenskra atvinnuflugmanna íhugar að grípa til harðra aðgerða gegn Icelandair vegna uppsagna atvinnuflugmanna. Þeir deila hart á félagið og telja það ganga á svig við samninga.

Talsmenn Félags íslenskra atvinnuflugmanna segjast hafa sýnt Icelandair skilning á árstíðasveiflum í flutningum og uppsögnum vegna þeirra, en hér sé greinilega um stefnubreytingu að ræða hjá félaginu, sem þeir geti ekki sætt sig við.

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, formaður félagsins, segir kjarasamninga kveða á um að flugmenn Icelandair njóti forgangs til vinnu hjá Icelandair. Skilningur félagsins sé sá að það gildi einnig um dótturfélag Icelandair í Lettlandi. Formaður félags íslenskra atvinnuflugmanna fundaði með forsvarsmönnum Icelandair í dag.

Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, segir að félagið hafi vaxið erlendis, með kaupum á erlendum flugfélögum, og starfssemin sem þar sé stunduð fari eftir vinnureglum þess lands þar sem dótturfyrirtækin starfa. Starfsemin í Lettlandi eigi til að mynda ekkert skylt við árstíðabundnar sveiflur í starfsemi Icelandair. Jón Karl segir það alls ekki rétt að um verulegar uppsagnir sé að ræða hjá félaginu.

Jón Karl segir að Icelandair vinni að því að auka umsvif sín og mörg verkefni séu í vinnslu sem geti kallað á að flugmenn verði endurráðnir.

Að sögn Jóhannesar Bjarna taka flugmenn ákvarðanir um aðgerðir í kvöld en þá munu þeir funda um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×