Innlent

Dæmdur fyrir að skjóta í átt að ketti

Karlmaður var í Héraðsdómi Austurlands í dag dæmdur til að greiða 100 þúsund krónur í sekt fyrir vopnalagabrot og brot gegn lögreglusamþykkt. Maðurinn skaut úr riffli út um glugga á heimili sínu á Egilsstöðum í átt að ketti sem var í garðinum. Riffill mannsins var gerður upptækur.

Atburðinn átti sér stað vorið 2006 en með athæfi sínu þótti maðurinn hafa skapað óþarfa hættu fyrir börn og dýr sem stytta sér oft leið um garða fólks. Fyrir dómi játaði maðurinn brot sitt en sagði ennfremur að riffillinn væri gamall minja- og erfðagripur og erfitt væri að miða og skjóta úr honum. Riffillinn er af gerðinni Winchester 22 calíber.

Maðurinn hefur ekki áður komist í kast við lögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×