Innlent

Náði ekki að synda yfir Ermasundið

Benedikt LaFleur, sunkappi.
Benedikt LaFleur, sunkappi. MYND/Stöð2

Sundkappinn Benedikt LaFleur náði ekki markmiði sínu að synda yfir Ermasundið milli Englands og Frakklands. Benedikt lét af áformum sínum í nótt eftir 21 klukkutíma sund vegna mikilla strauma við strönd Frakklands. Hann segir það vonbrigði að ekki náðist að klára sundið en segist þó vera reynslunni ríkari.

„Ég gat ekki náð landi. Straumarnir voru of sterkir," sagði Benedikt LaFleur, sunkappi, í samtali við Vísi. „Það var svekkjandi að sjá ströndina en geta ómögulega klárað sundið."

Bendikt hóf sundið um klukkan fjögur í gærmorgun að íslenskum tíma. Upphaflega var áætlað að sundið tæki um tuttugu klukkustundir en synt var frá bænum Dover í Englandi til Calais í Frakklandi. Þetta var í annað skiptið sem Benedikt reynir að synda yfir Ermasundið en í fyrra varð hann frá að hverfa vegna veðurs.

Sundið nú var tileinkað baráttunni gegn mansali og klámvæðingu.

Að sögn Benedikts gekk sundið afar vel til að byrja með og var jafnvel vonast til þess að hann næði að klára það á innan við 15 klukkustundum. „Þegar ég nálgaðist strönd Frakklands byrjaði að hvessa og straumarnir urður sífellt sterkari. Eftir ítrekaðar tilraunar varð ljóst að ég gat ekki lent í Frakklandi. Ég var þá orðinn mjög þreyttur."

Benedikt segir það vonbrigði að hann hafi ekki klárað sundið sérstaklega þar sem svo lítið var eftir. Hins vegar sé hann reynslunni ríkari og þetta hafi verið mikið ævintýri. „Vinstri öxlin er nokkuð aum og ég er örþreyttur. Þetta var hins vegar mikið stuð á meðan á þessu stóð. Ég vona að eitthvað hafi safnast í áheitasjóðinn."

Benedikt segist ekki vera búinn að gera það upp við sig hvort hann reyni aftur á næsta ári. „Það verður bara að koma í ljós. Þetta er ekki ódýrt sport."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×