Enski boltinn

Newcastle sagt falast eftir Eiði Smára

MYND/AP

Enskir miðlar greina frá því að Sam Allardyce, nýr knattspyrnustjóri Newcastle, sé nú staddur í Barcelona þar sem hann reyni að tryggja sér starfskrafta Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Sky-fréttastofan segir að Allardyce hafi þegar komist að samkomulagi við Barcelona um kaup á liðsfélaga Eiðs Smára, Brasilíumanninum Edmilson. Bæði Eiður og Edmilson hafa átt erfitt uppdráttar hjá Barcelona en Edmilson er nú að jafna sig eftir hnéaðgerð.

Vefurinn goal.com segir að Allardyce verði að reiða fram sjö milljónir punda, nálægt 900 milljónir króna, fyrir Eið Smára og þá þurfi Eiður að taka á sig launalækkun. Það sé því ekki víst að af kaupunum verði. Allardyce og Eiður þekkjast vel því Allardyce keypti Eið til Bolton árið 1998 áður en hann var svo seldur til Chelsea.

Newcastle er í hópi liða sem orðuð hafa verið við landsliðsfyrirliðann en auk Newcastle eru það meðal annars Englandsmeistarar Manchester United og Celtic í Skotlandi. Newcastle endaði í 13. sæti í úrvalsdeildinni í lok síðustu leiktíðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×