Innlent

Útstrikanir og ofríki í krafti auðs

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra gagnrýnir Jóhannes í Bónus harðlega fyrir að hvetja til útstrikana á sér. Hann lýsir áhyggjum af því að menn beiti ofríki í krafti auðs til að tryggja sér viðhlæjendur á þingi.

Tæplega 20 prósent kjósenda strikuðu yfir Björn og fellur hann niður um eitt sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.



Rúmlega 18 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks í Reykjavíkurkjördæmi suður strikuðu yfir nafn dómsmálaráðherrans. eða yfir 2500 kjósendur.

Þetta veldur því að Björn færist niður fyrir þingnýliðann Illuga Gunnarsson á lista flokksins. Verður því sjötti þingmaður kjördæmisins en Illugi þriðji.

Jóhannes Jónsson í Bónus hvatti til þess í auglýsingum fyrir kjördag að kjósendur strikuðu Björn út. Í hvassyrtri yfirlýsingu frá Birni bendir hann á að í í raun hafi 80% kjósenda flokksins haft áskorun Jóhanensar í Bónus að engu. Björn segir að auglýsingin hafi átt að ófrægja sig og einnig embættismenn sem komu að Baugsmálinu. Minnir Björn á að það mál hafi hafist áður en hann varð dómsmálaráðherra.

Í yfirlýsingu bendir Björn á að Jóhannes sé að beita auði og áhrifum sínum gegn stjórnmálamönnum sem standi í vegi fyrir því að hann fari öllu sínu fram. Segir dómsmálaráðherrann á að með árásum á sig sé Jóhannes að gera veika stöðu almennra fjárfesta enn verri gagnvart stóreigendum. Einkahagsmunir ráði ferð en ekki virðing fyri rétti annara.

Það kemur Birni á óvart að stjórnmálamenn og álitsgjafar telji að þessi auglýsing frá Jóhannesi sé næsta eðlileg ef ekki sjálfsagt nýmæli.

Í lok yfirlýsingar sinnar segir Björn:

"Ég lýsi áhyggjum yfir þróun stjórnmálastarfs og raunar réttarríkisins sjálfs, sé talið sjálfsagt og eðlilegt að beita ofríki í krafti auðs í því skyni, að tryggja sér viðhlæjendur á þingi, í réttarsalnum og hjá ákæruvaldinu. Er ekki tímabært að stalda við og líta á alvöru málsins?"

Fréttastofa sendi fyrir tveimur dögum tölvuskeyti til Björns og spurði, annars vegar um áhrif útstrikana á pólitíska stöðu hans - hins vegar hvenær væri að vænta skipunar í embætti ríkissaksóknara. Svar hefur enn ekki borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×