Innlent

Landsvirkjun seld á spottprís miðað við Hitaveitu Suðurnesja

Reykjavíkurborg og Akureyrarbær virðast hafa selt Landsvirkjun langt undir líklegu markaðsverði fyrir fimm mánuðum miðað við það verð sem ríkið fékk fyrir hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja fyrr í vikunni.

Orkufyrirtækin voru metin álíka verðmæt við sölu eignarhlutanna þótt helstu kennitölur segi að Landsvirkjun ætti að vera fjórfalt verðmætari.

Fjármálaráðherra undirritaði í gær samning um sölu á 15 prósenta hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja til Geysis Green Energy og var kaupverð 7,6 milljarðar króna. Fyrir fimm mánuðum undirritaði sami fjármálaráðherra samning um kaup ríkisins á helmingshlut í Landsvirkjun af Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ fyrir samtals um 30 milljarða króna.

Athyglisvert er að heildarvirði orkufyrirtækjanna er metið álíka mikið í þessum tveimur kaupsamningum þótt við blasi að Landsvirkjun sé margfalt stærra fyrirtæki. Hitaveita Suðurnesja er miðað við söluverð eignarhlutans í gær metin á fimmtíu milljarða króna en Landsvirkjun var miðað við söluna í nóvember metin á um sextíu milljarða króna. Þó var eigið fé Hitaveitunnar 15,7 milljarðar króna um síðustu áramót en Landsvirkjunar nærri fjórfalt hærra eða yfir sextíu milljarðar króna. Velta Landsvirkjunar var einnig margfalt meiri, eða 21,3 milljarðar miðað við 6 milljarða hjá Hitaveitunni. Svokölluð EBITDA, sem er rekstrarhagnaður án afskrifta, er oft notuð til að verðmeta fyrirtæki en hún var 3,2 milljarðar hjá Hitaveitunni en 14,9 milljarðar hjá Landsvirkjun, - fjórum til fimm sinnum hærri. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort Reykjavíkurborg og Akureyrarbær hafi samið af sér við söluna á Landsvirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×