Innlent

Ríkisstjórnin heldur velli með 33 þingmen

Þrír ráðherrar Framsóknarflokksins næðu ekki kjöri til Alþingis samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Ríkisstjórnin héldi þó velli með 33 þingmenn.

Framsóknarflokkurinn mælist með 10,1 prósents fylgi og fengi sex þingmenn, sem allir kæmu úr landsbyggðarkjördæmum. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður flokksins, Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra næðu því ekki inn. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 40,1 prósents fylgi og fengi 27 þingmenn. Ríkisstjórnin héldi því velli með samtals 33 fulltrúa. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 5,4 prósenta fylgi og fengi þrjá þingmenn - Guðjón Arnar Kristjánsson næði kjöri sem jöfnunarmaður, en ekki varaformaðurinn Magnús Þór Hafsteinsson. Samfylkingin bætir lítillega við sig, mælist með tuttugu og tveggja og hálfs prósents fylgi og fengi fimmtán menn kjörna, en hún er með nítján nú, og Vinstri grænir fengju átján prósent og tólf þingmenn, en er með fimm eins og er. 2,7% sögðust ætla að kjósa Íslandshreyfinguna og 0,7% Baráttusamtökin. Hvorugur flokkurinn næði manni á þing.

Ef þetta verður niðurstaðan munu 24 nýir þingmenn halda til starfa við Austurvöll eftir kosningarnar. Úrtakið hjá Fréttablaðinu var mun stærra en í könnunum blaðsins hingað til, 3.600 manns, eða 600 í hverju kjördæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×