Innlent

Framsóknarflokkurinn hefur eytt tvöfalt á við Sjálfstæðisflokkinn

Framsóknarflokkurinn hefur eytt tvöfalt meira en Sjálfstæðisflokkurinn í auglýsingar vegna komandi alþingiskosninga. Þegar auglýsingakostnaður flokkanna var tekinn saman í síðastliðinni viku hafði Framsóknarflokkurinn eytt rúmum fjórum milljónum króna í sjónvarpsauglýsingar.

Stjórnmálaflokkarnir sömdu um það í aðdraganda kosninganna að takmarka auglýsingakostnað hvers flokks í fjölmiðlum á landsvísu við 28 milljónir króna og sér Capacent Gallup um að taka saman kostnaðinn saman og birta yfirlit yfir hann.

Ný úttekt sem tekur til tímabilsins 27. mars til og með 25. apríl sýnir að Framsóknarflokkurinn hefur eytt mestu í auglýsingar af flokkunum fimm sem eiga sæta á þingi. Framsóknarflokkurinn hefur eytt 6,8 milljónum króna, Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur eytt 5,7 milljónum króna, Frjálslyndi flokkurinn hefur eytt 4,9 milljónum króna, Samfylkingin 4,8 milljónum króna og Sjálfstæðiflokkurinn 3,4 milljónum króna.

Á þessu sést að Framsóknarflokkurinn hefur eytt tvöfalt meira í auglýsingar en Sjálfstæðisflokkurinn. En Framsóknarflokkurinn hefur eytt rúmlega 24% af auglýsingafé flokksins.

Flokkarnir hafa eytt tæplega 21 milljón króna í auglýsingar í blöð en um átta hundruð þúsund í auglýsingar í útvarpi. Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem eytt hefur í auglýsingar í sjónvarpi en auglýsingar þar hafa kostað flokkinn rúmar fjórar milljónir króna.

Þar sem samkomulagið tekur aðeins til auglýsinga á landsvísu getur auglýsingakostnaður flokka orðið hærri en 28 milljónir króna, því hvorki kostnaður við gerð auglýsinga né birtingu þeirra í svæðisbundnum fjölmiðlum er innifalinn í samkomulaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×