Innlent

Nemendur setja sig í spor þingmanna

Í nýju kennsluveri Alþingis er búið að útbúa aðstöðu svo nemendur geti farið í hlutverkaleik og sett sig í spor þingmanna. Nemendur í efri bekkjum grunnskólanna geta þar sett lög og farið á þingfundi og fengið að sjá hvernig dagleg störf þingmanna eru.

Fyrsta kennsluverið af þessu tagi var opnað við danska þingið árið 2003. Slík kennsluver er einnig að finna við norska og sænska þingið.

Miðað er við að einn bekkur komi í Skólaþingið í einu en nemendurnir fá þá tækifæri til að setja sig í spor þingmanna og sinna störfum þeirra í tvær og hálfa klukkustund. Nemendurnir fá ákveðin mál sem þeir þurfa að leiða til lykta á sama hátt og þingmenn gera og þeir fara á nefndarfundi og takast á um málin í þingsal. Í þingsalnum, sem nemendurnir munu notast við, eru gömlu stólarnir sem skipt var út úr þingsal Alþingis árið 1986.

Þessi hlutverkaleikur sem nemendurnir fara í ætti að gefa þeim glögga mynd af því hvernig Alþingi starfar. Á síðasta ári heimsóttu hátt í þrjú hundruð nemendur Alþingi.

Skólaþingið var útbúið að frumkvæði Sólveigar Pétursdóttur, forseta Alþingis, og gert er ráð fyrir að starfsemi þess hefjist að fullum krafti í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×