Innlent

Dansflokkurinn slær í gegn í Kína

Íslenski dansflokkurinn á æfingu fyrir Kínaferðina.
Íslenski dansflokkurinn á æfingu fyrir Kínaferðina. MYND/Anton Brink

Mikil eftirspurn hefur verið eftir miðum á sýningu Íslenska dansflokksins í Shanghai í Kína, segir Bryndís Nielsen, kynningarfulltrúi dansflokksins. Starfsfólk Shanghai Dramatic Arts Centre Theatre, þar sem sýningin fer fram, sagt að fáir atburðir hafi verið jafn vinsælir. Gríðarlega vel hefur selst á sýninguna á sunnudag og eru allar líkur á að það verði alveg uppselt.

„Shanghai er tugmilljóna borg og segja skipuleggjendur sýningarinnar að venjulega gangi erfiðlega að selja á nútímadanssýningar þar. Það kemur því skemmtilega á óvart hversu vel gengur að selja á þessa sýningu", segir Bryndís Nielsen, kynningarfulltrúi dansflokksins. „Víðs vegar má finna upplýsingar, fréttir og auglýsingar um sýningu flokksins - í vikuritum, dreifimiðum, dagblöðum og vefmiðlum. Þá munu sjónvarpsstöðvar segja fregnir af sýningunni."

Bryndís segir að stór hópur Íslendinga sé væntanlegur á sýninguna sem og mikill fjöldi sendiráðsfólks víðs vegar að úr heiminum auk fjölda kínverskra dansunnenda.

Íslenski dansflokkurinn kom til Kína þann 26. apríl og mun hann sýna í þremur borgum í Kína: Shanghai, Guangzhou og Peking. Sýningarferðalagið stendur til 8. maí.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×