Innlent

Stefna að því að stækka miðborgina

Til stendur að stækka miðborg Reykjavíkur svo um munar með því að byggja upp á svokölluðu Höfðatorgi sem liggur á milli Borgartúns, Skúlatúns, Skúlagötu og Höfðatúns.

Hugmyndir um uppbyggingu á svæðinu voru kynntar í dag en þar er gert ráð fyrir kaffihúsum, veitingastöðum, verslunum, þjónustufyrirtækjum, listsýningum og öðru því sem einkennir mannlíf í miðborg.

Í tilkynningu frá Höfðatorgi kemur fram að ætlunin sé að opin svæði nái yfir rúmlega 60 prósent af lóðinni en það er hægt með því að byggja upp á við, allt að 19 hæða hús. Alls verður flatarmál bygginga á Höfðatorgi um 75 þúsund fermetrar ofan jarðar.

Áætlað er að tveir þriðju hlutar húsnæðisins fari undir fyrirtæki, verlsanir og veitingastaði en þriðjungur húsnæðisins fer undir íbúðir og er áætlað að þær verði allt að 200 talsins. Fyrsta byggingin á Höfðatorgi er þegar risin og stendur hún við Borgartún.

Undirbúningur að uppbyggingu Höfðatorgs hefur staðið yfir frá árinu 2000 en þá keypti byggingarfélagið Eykt í kjölfar útboðs Reykjavíkurborgar fyrstu lóðirnar á svæðinu, lóðina Höfðatún 2 og lóð Vélamiðstöðvar Reykjavíkur og Trésmiðju Reykjavíkurborgar við Skúlatún 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×