Innlent

Biskup segir að menn verði að fara sér hægt

Biskup íslands telur ekki tímabært að prestar innan þjóðkirkjunnar fái heimild til að gefa saman í hjónaband samkynhneigð pör. Tillaga þess efnis var felld á Prestastefnu á Húsavík í dag. Hópur presta lagði fram tillögu um að þjóðkirkjan fari þess á leit við Alþingi að lögum verði breytt á þann veg að prestar fái að gefa saman samkynhneigð pör.

Biskup segir tillöguna ekki tímabæra og að í þessum efnum verði menn að fara sér hægt. Nokkuð var tekist á um tillöguna, enda um hitamál að ræða, en að lokum var hún felld. Álit kenninganefndar um að prestar fái heimild til að blessa samvist samkynhneigðra var samþykkt en prestar hafa haft þá heimild í ár.

Annari tillögum þess efnis að prestar verði vígslumenn samkynheigðra var vísað til kenninganefndar og biskups. Einn þeirra presta sem stóðu að tillögunni um giftingu samkynheigðra sagði við fréttamann að þeir prestar sem hann hafi rætt við hafi verið á þeirri skoðun að þrátt fyrir að ekki sé tímabært að samþykkja tillöguna núna sé það aðeins tímaspursmál hvenær það verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×