Innlent

Alveg eins hægt að stilla upp símastaurum í bæjarstjórn

Helsti eðalkrati landsins, sá sem á einkanúmerið "krati", hefur sagt sig úr Samfylkingunni. Þetta er Árni Hjörleifsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, en hann vill með úrsögn sinni lýsa andúð á skoðanaleysi bæjarfulltrúa flokksins í álverskosningunni og óheilindum þeirra í garð fyrirtækisins.

Það er sagt að þeir gerist ekki meiri eðalkratar en þeir sem eru í Hafnarfirði og sá sem á einkaanúmerið "krati" hefur í áratugi verið kallaður Árni krati. Hann sat í bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir Alþýðuflokkinn á árunum 1990 til 1998, var formaður bæði skipulagsnefndar og skólanefndar og náinn samstarfsmaður Guðmundar Árna Stefánssonar. Hann hefur nú sagt sig úr Samfylkingunni.

Árni segir að álverið hafi í 40 ár verið eitt besta fyrirtæki bæjarins og greitt góð laun en nú séu bæjarfulltrúar flokksins að stuðla að því að það hrökklist úr bænum. Hann segir þá hafa sýnt óheilindi í garð Alcan. Þeir hafi í mörg ár undirbúið stækkun þess og dregið fyrirtækið á asnaeyrunum en síðan hent málinu í kosningar. Slíkt sé ekki heiðarleg framkoma. Ef bæjarfulltrúar geti ekki fylgt málinu eftir og treysti sér ekki til að hafa skoðanir sé alveg eins hægt að stilla upp símastaurum í bæjarstjórn.

Þrátt fyrir úrsögn úr Samfylkingunni segist hann alltaf verða krati en segist ekki vita hvaða flokk hann að kýs í þingkosningunum í vor og sennilega muni hann ekki ákveða sig fyrr en á síðustu stundu í kjörklefanum. Þegar nánar er gengið á Árna og hann spurður hvað líklegast sé að hann kjósi svarar hann Samfylkinguna, enda sé ekki verið að kjósa í bæjarstjórn heldur til þings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×