Enski boltinn

Baird hlakkar ekki til að mæta Eiði Smára

NordicPhotos/GettyImages

"Já, ég er það að minnsta kosti," sagði Chris Baird fyrirliði Norður-Íra og hló í samtali við Vísi í dag þegar hann var spurður hvort hann óttaðist Eið Smára Guðjohnsen ef hann næði að spila leik Íslands og Norður-Írlands í undankeppni EM á miðvikudagskvöldið.

"Eiður er frábær leikmaður sem hefur leikið með úrvalsliðum og hann fór nú frekar illa með okkur í fyrri leiknum ef ég man rétt, þar sem hann skoraði mark og átti þátt í hinum. Ég veit ekki hvort hann verður með eða ekki, en ef hann spilar, verðum við að halda honum niðri," sagði Baird á blaðamannafundi síðdegis, en hann er varnarmaður Fulham í ensku úrvalsdeildinni. Hann á von á erfiðum leik gegn íslenska liðinu.

"Íslenska liðið er hávaxið og sterkt og úrslitin gegn Spánverjum sýna að við eigum von á erfiðum leik. Við gefum ekkert upp um það nákvæmlega hver leikaðferð okkar verður - nema hvað við ætlum að spila okkar leik og reyna að vinna. Það var rosalega svekkjandi að tapa leiknum gegn Lettum og því verðum við að ná okkur á réttan kjöl núna af því við eigum mjög erfiða leiki fyrir höndum í keppninni," sagði Baird, sem varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í leiknum við Letta í Riga. Hann á ekki von á því að Nigel Worthington þjálfari geri miklar breytingar á hópnum þó hann hafi hótað því eftir tapið í síðasta leik.

"Ég á ekki von á að hann breyti mjög miklu, en þeir sem detta út ef svo verður verða væntanlega vonsviknir. Við áttum að vinna leikinn gegn Lettum á laugardaginn, en við getum huggað okkur við að við erum enn inni í myndinni vegna úrslita eins jafnteflisins sem Íslendingar gerðu við Spánverja," sagði Baird.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×