Innlent

Heilbrigðiskerfið að brenna til kaldra kola

MYND/365

Grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru að brenna til kaldra kola og ekki verður lengur við neitt ráðið. Þetta kom fram í ræðu Kristínar Á. Guðmundsdóttur, formanns Sjúkraliðafélags Íslands, á fyrsta maí hátíðahöldunum á Ingólfstorgi í Reykjavík í dag. Hún sagði heilbrigðiskerfið vera í molum.

Í ræðu sinni varaði Kristín við þeirri þróun að kjarasamningar séu færðir frá stéttarfélögunum í hendur launafólks. Þetta kerfi henti atvinnurekendum betur og hafi skilað litlum árangri fyrir launafólk. Þá gagnrýndi hún launaleynd og sagði hana öllum til óþurftar.

Kristín sagði í ræðu sinni að á undanförnum árum hafi nýfrjálshyggjan sótt að verkalýðshreyfingunni með það að markmiði að veikja samstöðuna. Benti hún á að verkalýðshreyfingin hefði miklu áorkað í áranna rás og sá árangur hefði aðeins náðst með samstöðu verkafólks.

Þá lagði Kristín fram fimm kröfur um bætt réttindi og betri lífskjör. Í fyrsta lagi að jafna skuli laun karla og kvenna. Í öðru lagi að tryggja jafnrétti til náms. Í þriðja lagi stórlækkun á skatti sem tekinn er af lífeyrisþegum. Í fjórða lagi endurskoðun á vinnutíma vaktafólks og í fimmta lagi að fátækt verði útrýmt.

Þá sagði Kristín að þrátt fyrir yfirlýsingar ráðamanna um að heilbrigðiskerfið væri glæsilegt töluðu staðreyndirnar öðru máli. Sagði hún meðal annars manneklu valda því að biðraðir séu eftir sjúkraplássum og að aldraðir fái ekki hjúkrun við hæfi. Líkti hún ástandinu við eldsvoða sem ekkert fær stöðvað. „Heilbrigðiskerfið er að hruni komið. Grunnstoðir heilbrigðiskerfisins eru að brenna til kaldra kola."

Að lokum hvatti Krístin verkafólk til að standa vörð um almannaþjónustuna og halda áfram baráttunni fyrir jöfnuði, jafnrétti og réttlæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×