Innlent

Alvarleg líkamsárás í rannsókn á Akranesi

Lögreglan á Akranesi vinnur nú að rannsókn á alvarlegri líkamsárás á Akranesi um helgina. Að sögn lögreglunnar átti árásin sér stað aðfararnótt laugardagsins og hefur ein kæra verið lögð fram vegna hennar.

Lögreglan vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið utan að fórnarlamb árásarinnar, karlmaður, hafi verið með verulega áverka á andliti þegar að var komið. Hann mun þó hafa sloppið við beinbrot.

Eftir því sem Vísir kemst næst var karlmaðurinn á leið heim úr skötuveislu er árásin átti sér stað. Var ráðist á hann fyrir utan Skagaver og hann skilinn þar eftir á götunni meðvitundalaus. Eftir að lögreglu barst tilkynning um árásina var maðurinn fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×