Innlent

Skötuilmurinn setur mark sitt á landið í dag

Heimir Már Pétursson skrifar

Það er óhætt að segja að skötuilmurinn, eða óþefurinn, setji mark sitt á landið í dag.

Þessi vestfirski siður hefur smátt og smátt dreifst um landið en fyrir tveimur til þremur áratugum voru það nánast eingöngu Vestfirðingar og Vestmannaeyingar sem borðuðu kæsta skötu.

Nú þykir enginn maður með mönnum, eða kona með konum, svo alls réttlætis sé gætt, án þess að gleypa í sig þennan sérstæða rétt og því kæstari sem skatan er, þeim mun meiri hetjur er fólk talið vera. Sumir vilja skötuna svo kæsta að þeir skæla af því að borða hana.

Á Múlakaffi í Reykjavík hefur í marga áratugi verið boðið upp á kæsta skötu á Þorláksmessu og Jóhannes kokkur var kominn í skötuham eldsnemma í morgun.

Hann býður upp á skötu fyrir nýliða og lengra komna og víst er að margir borða í sig jólaskap á Múlakaffi í dag og koma ilmandi glaðir heim til sín, tilbúnir í önnur herlegheit og vonandi einhvern snefil af heilagleika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×