Innlent

Auðunn telur lyfjaprófið hafa verið ólöglegt

Kraftlyftingamaðurinn Auðunn Jónsson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna keppnisbanns Alþjóðakraftlyftingasambandsins. Segir hann framkvæmd lyfjaprófsins í Noregi hafa alla verið hina undarlegustu og telur hana ólöglega.

Í heild hljóðar yfirlýsingin svo: "Í kjölfar þess að Alþjóðaíþróttadómstóllinn hefur staðfest keppnisbann Alþjóðakraftlyftingasambandsins og þar með dæmt mig í tveggja ára keppnisbann frá og með nóvember 2006 vil ég skýra mál mitt.

Fyrir þátttöku í heimsmeistarakeppninni í kraftlyftingum sem fram fór í Noregi í nóvember 2006 var ég fyrirvaralaust kallaður í lyfjapróf. Framkvæmd þess lyfjaprófs var öll hin undarlegasta og á allan hátt frábrugðin þeim fjölda annarra lyfjaprófa sem ég hef gengist undir áður og samkvæmt mínum lagaskilningi ólöglegt í allri framkvæmd.

Aldrei nokkru sinni hafa ólögleg efni fundist í líkama mínum eða leikið grunur á því að ég misnoti efni til að auka árangur minn í íþróttum. En eftir lyfjapróf það sem tekið var af mér í nóvember 2006 komu einungis í ljós niðurbrotsefni en engin ólögleg efni.

Yfirlýsing þessi felur í sér lokayfirlýsingu mína í þessu máli en ég horfi nú til framtíðar.

Ég vil og biðja íslenska fjölmiðla að hafa í huga hag fjölskyldu minnar og minna nánustu vina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×