Innlent

Verkalýðshreyfingin bíður ekki lengi eftir áramót með aðgerðir

Samingar eru lausir um áramótin eins og flestir vita. Kristján Gunnarsson formaður Starfsgreinasambandsins segir að það sé ljóst að verkalýðshreyfingin muni ekki hafa mikla þolinmæði til að vinna eftir gamla samningnum í langan tíma eftir áramótin.

Kristján segir að hann hafi boðað formannafund hjá sambandinu þann 7. janúar og hann vonar að fyrir þann fund verði ríkisstjórnin búin að setja fram sínar hugmyndir um aðkomuna að kjaraviðræðunum.

Höfuðkrafa verkalýðshreyfingarinnar á hendur ríkisstjórninni er að skattleysismörkin verði hækkuð í 150.000 kr. á mánuði og að álagningin fari svo stighækkandi upp að 300.000 kr. markinu.

Árni Mathiesen fjármálaráðherra segir aðspurður að þótt staðan á ríkissjóði sé mjög góð um þessar mundir verði menn að huga að því að enn er mikil spenna í efnahagslífi þjóðarinnar. "Þetta getur þýtt að ef slakað er á klónni fari verðbólgan á mikið skrið," segir Árni. Hvað varðar viðræðurnar við verkalýðshreyfinguna sérstaklega er það mál á forræði formanna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Kristján segir að formlegur fundur með fulltrúum atvinnulífsins hafi ekki verið boðaður eftir áramótin. Menn vilji fyrst sjá hvað spil ríkisstjórnin sé með á hendinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×