Markaðssetning Simpsons-kvikmyndarinnar er komin á fullt skrið í Bandaríkjunum og er óhætt að fullyrða að framleiðendur og markaðsmenn fari óhefðbundnar leiðir í þeim efnum.
Viðskiptavinir valdra 7-Eleven verslana í Bandaríkjunum geta nú keypt forlátar vörur á borð við Buzz-Cola, Morgunkorn Krusty og Squishee-gosdrykki, sem aðdáendur Simpsons-fjölskyldunnar ættu að kannast við úr samnefndum þáttum.
Í tilefni af frumsýningu Simpson-kvikmyndarinnar síðar í mánuðinum ákvað 7-Eleven keðjan, gegn vænlegri greiðslu frá framleiðendum kvikmyndarinnar, að breyta útliti nokkurra verslana þannig að þær líktust Kwik-E-Mart verslun Apu Nahasapeemapetilon í Simpson-þáttunum. Apu þessi er hindúískur vinnualki sem eitt sinn stóð vaktina í 96 klukkustundir samfleytt án þess að taka pásu.
Viðtökur viðskiptavina létu ekki á sér standa við opnun verslananna í gær og mynduðust langar biðraðir fyrir utan flestar þeirra. Vörurnar úr þáttunum seldust eins og heitar lummur og vöktu mikla lukku. „Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum. Ég átti von á einhverri athygli en hér hefur verið allt vitlaust,“ sagði ónefndur verslunarstjóri í gær.