Innlent

Ekki gefinn út hvalkvóti fyrr en ljóst er með sölu

Ekki verður gefinn út hvalkvóti fyrr en ljóst er að hægt sé að selja það kjöt sem veitt hefur verið. Ekki er gert ráð fyrir neinum hvalveiðum í nýrri reglugerð sjávarútvegsráðherra um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári. LÍÚ vill að hvalveiðar verði áfram leyfðar til að grisja hvalinn.

Sjávarútvegsráðherra kynnti í ráðherrabústaðnum síðastliðinn fimmtudag reglugerð um leyfilegan heildarafla á næsta fiskveiðiári. Í reglugerðinni er ekki gefinn út neinn kvóti vegna hvalveiða.

Hvalveiðar í atvinnuskyni hófust að nýju eftir tæplega tveggja áratuga hlé í október í fyrra. Viðræður hafa staðið yfir við japönsk stjórnvöld vegna sölu á kjötinu þangað en ekki er þó ljóst hvort og þá hvenær salan getur hafist. Sjávarútvegsráðherra segir grundvöll fyrir veiðunum að kjötið seljist.

Landssamband íslenskra útvegsmanna sendi frá sér tillögur í síðustu viku þar sem lagt var til að hvalveiðar yrðu stórauknar. Helstu hvalastofnar við landið eru stórir og samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunarinnar hafa hvalir töluverð áhrif á stærð helstu nytjastofna. Sambandið vill að veiðar verði leyfðar hvort sem kjötið seljist eða ekki til að grisja hvalinn. Sjávarútvegsráðherra segir það ekki koma til greina heldur sé grundvöllurinn að hægt sé að nýta kjötið og selja það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×