Innlent

Þungt áfall fyrir Vesturland

Efnahagsleg áhrif aflasamdráttar nema um 1,6 milljarði króna á Akranesi.
Efnahagsleg áhrif aflasamdráttar nema um 1,6 milljarði króna á Akranesi. MYND/GVA

Ákvörðun stjórnvalda um 30 prósent kvótasamdrátt í þorski er þungt áfall fyrir Vesturland og ekki ríkir einhugur meðal íbúa um nauðsyn þess að grípa til svo harkalegra aðgerða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Talið er að efnhagsleg áhrif skerðingarinnar nemi um 5 milljörðum króna á ári.

Fram kemur í yfirlýsingunni að stjórn samtakanna telji mjög brýnt að mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar beinist að öllum svæðum Vesturlands sem ákvörðun um aflasamdrátt bitnar á.

Í yfirlýsingunni er vísað til þessa að efnhagsleg áhrif á Vesturlandi af 30 prósent skerðingu þorskkvóta nemi um 4,9 milljörðum króna á ári. Þar af nema þau 2 milljörðum í Snæfellsbæ, 1,6 milljarði á Akranesi og tæpum milljarði í Grundarfjarðarbæ. Bent er á að sjávarútvegur er snar þáttur í atvinnulífi Vesturlands sérstaklega á Snæfellsnesi þar sem fiskveiðar nema um 40 prósent af þáttatekjum svæðisins og fiskvinnsla um 30 prósent.

Þá kemur einnig fram að ekki ríki einhugur meðal íbúa á svæðinu um nauðsyn þess að grípa til svo harkalegra aðgerða sem stefnir samfélögum í hættu. Að mati samtakanna er því mikilvægt að auka nú þegar hafrannsóknir við landið samhliða því að auka dreifræði í fiskveiðiráðgjöfinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×