Fótbolti

Brasilía í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brasilíukonur höfðu ærna ástæðu til að fagna í dag.
Brasilíukonur höfðu ærna ástæðu til að fagna í dag. Nordic Photos / Getty Images

Brasilía vann Ástralíu í spennandi leik í síðustu viðureign fjórðungsúrslitanna á HM kvenna í knattspyrnu sem fer fram í Kína.

Brasilía komst 2-0 yfir í leiknum en Ástralir jöfnuðu metin. Cristiane skoraði svo sigurmark leiksins um stundarfjórðungi fyrir leikslok.

Brasilía komst yfir strax á fjórðu mínútu er Formiga skoraði. Marta, leikmaður Umea í Svíþjóð, bætti svo um betur er hún skoraði sitt fimmta mark á mótinu úr vítaspyrnu á 23. mínútu eftir að brotið var á Ranate Costa í vítateig Ástrala.

Lisa De Vanna tókst þó að minnka muninn fyrir Ástralíu áður en flautað var til hálfleiks. Brasilíumenn gerðu skelfileg varnarmistök og sendu boltann á De Vanna þegar hún var ein gegn markverði Brasilíu.

Þetta var fjórða mark Ástralans á mótinu en Marta er nú markahæsti leikmaður mótsins ásamt Ragnhild Gulbrandsen, leikmanni Noregs.

Ástralir komu svo öllum að óvörum með því að jafna metin á 68. mínútu. Há sending kom inn á teiginn frá vinstri og Lauren Colthorpe var á undan brasilíska markverðinum í boltann og skallaði hann í netið.

En Adam var ekki lengi í paradís. Aðeins sjö mínútum síðar kom Cristiane Brasilíu yfir með frábæru skoti utan teigs. Það var óverjandi fyrir markvörð norska liðsins.

Skömmu síðar áttu Brasilíumenn skot úr aukasyprnu sem fór í þverslá norska marksins.

Brasilía mætir Bandaríkjunum í undanúrslitum keppninnar á fimmtudaginn kemur. Fyrr í dag tryggðu Norðmenn sér sæti í undanúrslitum með því að leggja heimamenn í Kína að velli.

Noregur mætir Þýskalandi í undanúrslitum á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×