Enski boltinn

Keane: Mourinho var lyftistöng

NordicPhotos/GettyImages

Roy Keane, stjóri Sunderland, harmar brottför Jose Mourinho úr ensku úrvalsdeildinni og segir Portúgalann hafa virkað sem lyftistöng á deildina. Hann vonast til að sjá Mourinho aftur á Englandi áður en langt um líður.

"Ég fékk nú aldrei að hitta hann en sjáið bara hvað hann gerði fyrir deildina - hann virkaði sannarlega sem lyftistöng á alla, meira að segja stóru félögin. Þau þurftu að spýta í lófana til að halda í við Mourinho og komu út sterkari fyrir vikið," sagði Keane. Hann segir ekki auðvelt fyrir menn að fara í föt Portúgalans.

"Jose gerði Chelsea að toppliði. Það eru hugsanlega ein 10 lið í deildinni sem kallast geta góð lið og Chelsea var eitt þeirra - en Mourinho gerði það að toppliði. Það er erfiðasta skrefið af öllum - að gera gott lið að toppliði. Það er ekki nokkur vafi á því að Mourinho á eftir að skilja eftir sig skarð í úrvalsdeildinni," sagði Keane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×