Innlent

Tengivagn dreginn í bæinn til rannsóknar

Björn Gíslason skrifar
Tengivagninn rann hátt í hundrað metra áður en han valt á hliðina.
Tengivagninn rann hátt í hundrað metra áður en han valt á hliðina.

Enn er allt á huldu um það hvers vegna tengivagn slitnaði aftan úr flutningabifreið á vegum Landflutninga - Samskipa til móts við Steinabæi undir Eyjafjöllum í morgun.

Eins og greint var frá fyrr í dag þótti það lán í óláni að tengivagninn skyldi fara yfir á öfugan vegarhelming og út á tún þar sem hann valt í stað þess að fara út af veginum hægra megin því þá hefði hann líklega endað á íbúðarhúsi og fjósi á Steinum.

Bergvin Þórðarson, öryggisstjóri Landflutninga - Samskipa, fór austur fyrir fjall í morgun að skoða aðstæður og í samtali við fréttastofu nú eftir hádegið sagði hann að ekki lægi fyrir hvers vegna vagninn hefði slitnaði frá bílnum. Hann sagði að beðið yrði eftir því að vind lægði á svæðinu svo hægt væri að rétta tengivagninn við og draga hann í bæinn þar sem hann verður rannsakaður frekar.

Bergvin sagðist telja að timbur og bárujárn sem voru í vagninum væru lítið skemmd eftir veltuna. Lögregla á Hvolsvelli á eftir að ræða við bílstjóra flutningabílsins en hann ók austur á firði með þann farm sem var í bílnum eftir óhappið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×