Innlent

Lemstraður og drukkinn undir stýri

Hella.
Hella. MYND/365

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur til að greiða 130 þúsund krónur í sekt fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Fullyrðingum mannsins um að hann hefði drukkið áfengi eftir að akstri lauk þótt ekki trúverðug.

Það var í aprílmánuði í fyrra að maðurinn hringdi í lögregluna á Hvolsvelli og óskaði eftir aðstoð eftir að sambýliskona hans hafði gengið í skrokk á honum í hesthúsi skammt frá Hellu. Þegar lögreglan mætti á svæðið var maðurinn sýnilega ölvaður og nokkuð lemstraður eftir átökin. Hann vildi þó ekki þiggja boð lögreglu um að honum yrði ekið til læknis.

Suttu seinna hafði lögreglan afskipti af manninum þar sem hann var akandi skammt frá afleggjaranum að Langasandi. Mikla áfengislykt lagði af honum og var hann því færður á heilsugæslustöðina á Hvolsvelli í blóðsýnistöku.

Maðurinn neitaði því fyrir dómi að hafa ekið drukkinn en sagðist hafa fengið sér vodkasopa eftir að lögreglan var búinn að stöðva hann. Á þá skýringu féllst dómarinn hins vegar ekki.

Auk þess að greiða 130 þúsund krónur í sekt var maðurinn sviptur ökuréttindum í tólf mánuði og gert að greiða sakarkostnað að upphæð 191 þúsund krónur.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×