Enski boltinn

Lescott kallaður í enska landsliðið

Joleon Lescott
Joleon Lescott NordicPhotos/GettyImages

Miðvörðurinn öflugi Joleon Lescott hjá Everton hefur verið kallaður inn í enska landsliðshópinn sem mætir Israelum á Wembley í undankeppni EM á laugardaginn. Lescott hefur farið mikinn með Everton í upphafi leiktíðar, en hann tekur stöðu Sol Campbell hjá Portsmouth í landsliðinu eftir að sá síðarnefndi meiddist.

Miðjumaðurinn Frank Lampard hjá Chelsea mun líklega missa af leiknum við Ísrael vegna meiðsla, en Steve McClaren landsliðsþjálfari er bjartsýnn á að Steven Gerrard fyrirliði verði búinn að ná sér af sínum meiðslum. Áður hafði framherjinn Emile Heskey hjá Wigan verið kallaður inn í hópinn, en nokkuð framherjahallæri ríkir í enska hópnum um þessar mundir.

Joleon Lescott hefur byrjað leiktíðina afar vel með Everton, en auk þess að vera eins og klettur í varnarleiknum, hefur hann náð að læða sér í sóknina inn á milli og skora tvö mörk.

"Joleon hefur verið frábær með Everton á báðum endum vallarins og svo er hann líka fjölhæfur og getur spilað stöðu bakvarðar. Hann kom inn sem varamaður með B-landsliðinu í vor og þar hreifst ég af frammistöðu hans. Ég hef fulla trú á því að hann geti unnið sér sæti í aðalliðinu í framtíðinni," sagði McClaren landsliðsþjálfari í samtali við breska sjónvarpið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×