Innlent

Baráttusamtökin íhuga að kæra ákvarðanir yfirkjörstjórna

Forsvarsmenn Baráttusamtaka eldri borgara og öryrkja íhuga að kæra ákvörðun þriggja yfirkjörstjórna að hafna framboðslistum flokksins fyrir komandi kosningar. Fordæmi er fyrir því að dómstóll hafi snúið við slíkri ákvörðun yfirkjörstjórnar.

Framboðsfrestur vegna þingkosninganna tólfta maí rann út á hádegi í gær. Alls skiluðu sex framboð inn listum á landsvísu. Yfirkjörstjórnir hafa samþykkt öll framboðin.

Baráttusamtök eldri borgara og öryrkja náðu aðeins að skila inn framboði í Norðausturkjördæmi, áður en fresturinn rann út. Það framboð hefur verið úrskurðað gilt.

Aðeins var tekið á móti framboðum í tvo tíma eða frá tíu í gærmorgun til hádegis. Baráttusamtökin höfðu tilbúna lista í öllum kjördæmum en náðu ekki að skila þeim öllum inn.

Samtökin skiluðu hins vegar inn framboðum eftir að fresturinn rann út í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Yfirkjörstjórnir þar ákváðu að hafna framboðunum þar sem þau bárust of seint. Baráttusamtökin reyndu einnig að skila inn framboði í Suðurkjördæmi en þar neitaði yfirkjörstjórn að taka á móti framboðinu.

Baráttusamtökin eru ósátt við þessa afgreiðslu og íhuga nú að kæra niðurstöðurnar til landskjörstjórnar. Arndís Björnsdóttir, talsmaður samtakanna, sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 í gær að tölvuvandræði og veikindi hefðu valdið því að ekki hefði náðst að skila framboðunum. Hún sagðist vonast til að sérstökum aðstæðum yrði sýndur skilningur.

Héraðsdómur Norðurlands vestra felldi vorið 2002 úr gildi úrskurð yfirkjörstjórnar Blönduósbæjar og Engihlíðarhrepps um að taka lista bæjarmálafélagsins Hnjúka ekki gildan í sveitastjórnarkosningum. Listinn barst ellefu mínútum of seint. Dómurinn taldi hagsmuni kjósenda skipta meira máli en tímafrestinn og lagði til að yfirkjörstjórn tæki listann til skoðunar.

Baráttusamtökin hafa sólarhrings frest til að kæra niðurstöður yfirstjórnanna frá því þeim voru birtar þær. Sem þýðir að frestirnir til þess að kæra renna út frá hádegi til klukkan þrjú á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×