Innlent

Maðurinn sem fannst í blóði sínu í húsi í Hveragerði er látinn

Karlmaður á sextugsaldri sem fannst liggjandi í blóði sínu í heimahúsi í Hveragerði lést á sjúkrahúsi í Reykjavík í gærkvöldi. Ekki er talið að átök hafi átt sér stað, en húsráðandi gisti fangageymslur lögreglu í nótt vegna málsins. Vegna ölvunarástands var ekki unnt að yfirheyra hann fyrr en í morgun. Hann er nú frjáls ferða sinna.

Sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík sáu um rannsókn á vettvangi, en lögregla á Selfossi annaðist skýrslutöku af tilkynnanda og öðrum sem höfðu upplýsingar um málið.

Lögreglunni á Selfossi barst tilkynning um klukkan fimm í gær um að maðurinn hefði fundist og var hann strax fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.

Lögreglan varðist strax í gær allra frétta af málinu enda mjög óljóst hvað hafði gerst.

Dánarorsök mannsins er óljós en beðið er niðurstöðu réttarmeinafræðings.

Engin er nú í haldi lögreglu vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×