Innlent

Hlakka til að funda með Björk

Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson

„Ég hlakka til að funda með Björk,“ segir Björn Ingi Hrafnsson, formaður fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar. Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi hefur skrifað honum opið bréf, þar sem hún segir að þrettán mánuðir séu frá síðasta fundi nefndarinnar. Óski hún eftir fundi, enda ekki seinna vænna þar sem örfáir dagar séu til kosninga.

„Fjölskyldunefnd er vettvangur innan ríkisstjórnarinnar, sem hefur fjallað um mörg mál sem hafa orðið að veruleika á kjörtímabilinu, meðan nefndin var að störfum,“ segir Björn Ingi, sem kveður nefndina ekki endilega hafa verið setta á laggirnar til að koma með beinar tillögur sjálf. „Sem dæmi um framgang mála má nefna ættleiðingarstyrki. Þá höfum við rætt mikið um tólf mánaða fæðingarorlof, sem mér sýnist vera komin breið samstaða um að verði að veruleika á næstunni. Við höfum rætt um gjaldfrelsi í leikskólum, samþættingu skóla, frítíma og vinnudags og nú er Reykjavíkurborg að fara af stað með fjörutíu þúsund króna frístundakort fyrir börn á aldrinum sex til átján ára.“

Björn Ingi kveður nefndina hafa staðið að rannsóknum, ásamt fleirum, að hag og velferð fjölskyldunnar.

„Sjálfsagt má deila um hvort fundirnir séu nógu margir eða ekki, en aðalatriðið er að það er alltaf verið að vinna að því að gera Ísland fjölskylduvænna samfélag.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.