Innlent

Þroskaheftar stúlkur ákveði sjálfar kæru

Aðalsteinn Sigfússon
„Við litum svo á að þetta mál væri í góðum farvegi og að hún yrði sjálf að taka ákvörðun um hvort hún myndi kæra,“ segir félagsmálastjóri Kópavogs.
Aðalsteinn Sigfússon „Við litum svo á að þetta mál væri í góðum farvegi og að hún yrði sjálf að taka ákvörðun um hvort hún myndi kæra,“ segir félagsmálastjóri Kópavogs. MYND/Pjetur

Engin kæra mun hafa verið lögð fram á hendur mönnum sem taldir eru hafa misnotað tvær þroskaheftar og heyrnalausar stúlkur í júlí og september í fyrra.

Liðsmaður sem félagsþjónustan í Kópavogi greiddi fyrir aðra stúlkuna í ferð til Akureyrar braut þar í bænum gegn báðum stúlkunum í júlí í fyrra. Hópur heyrnarlausra manna misnotaði síðan stúlkurnar í afmælisveislu í Kópavogi í september.

Stúlkan og aðstandendur hennar báðu sjálf um þennan tiltekna liðveitanda fyrir Akureyrarferðina. Stúlkan og maðurinn búa í sama stigangi í fjölbýlishúsi í Kópavogi.

Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri í Kópavogi, segir félagsþjónustuna hafa samþykkt manninn eftir að rætt hafði verið við hann og sakavottorð hans lá fyrir. Umræddur liðveitandi væri ekki í starfi hjá félagþjónustunni heldur hefði hún aðeins greitt laun hans vegna ferðarinnar.

Eftir að uppskátt varð um misnotkunarmálið segir Aðalsteinn það hafa verið rætt ítarlega innan félagsþjónustunnar.

„Við litum svo á að þetta mál væri í góðum farvegi og að hún yrði sjálf að taka ákvörðun um hvort hún myndi kæra. Við fullvissuðum okkur um það að það væri vel utan hana haldið og að hún fengi þá leiðsögn sem hún þyrfti á að halda. Ég held að við höfum gert rétt í þessu,“ segir Aðalsteinn sem kveðst ekki vita um afrif málsins eftir það.

Hjördís Anna Haraldsdóttir, formaður Félags heyrnarlausra, segir að fyrir sitt leyti hafi félagið tilkynnt félagsþjónustunni í Kópavogi um málið þegar það hafi komið upp á yfirborðið. Hún segist ekki vita til þess að misnotkunin hafi verið kærð. „Ég veit ekki hvar málið er statt,“ segir Hjördís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×