Innlent

Léttir að sleppa við stigafrádrátt

Eggert Magnússon. Feginn að engin stig voru dregin af West Ham. 
nordic photos/getty
Eggert Magnússon. Feginn að engin stig voru dregin af West Ham. nordic photos/getty

„Aðalmálið er að það voru ekki tekin af okkur stig. Það er langstærsta atriðið,“ sagði Eggert Magnússon, stjórnarformaður enska fótboltaliðsins West ham, sem í gær var sektað um jafnvirði 709 milljóna íslenskra króna.

Félagið var dæmt vegna ólöglegra félagaskipta argentísku leikmannanna Carlos Tecez og Javier Mascherano Skiptin urðu í ágúst, áður en eignarhaldsfélag Björgólfs Guðmundssonar og Eggerts Magnússonar keypti fótboltaliðið.

Samningsréttur leikmannanna er að hluta til í eigu þriðja aðila og var West Ham fundið sekt um að leyna mikilvægum skjölum um félagaskiptin. Mascherano leikur nú með Liverpool en vilji West Ham nota Tevez áfram þarf hann að semja við félagið upp á nýtt.

„Það er alveg ljóst að þessir hlutir gerðust áður en við komum að klúbbnum og munum við því skoða okkar mál mjög vel,“ sagði Eggert um framhald málsins en West Ham getur áfrýjað dómnum. „Það er ekki víst hvort við áfrýjum, við ætlum að anda rólega fyrst um sinn.“

West Ham stendur í harðri fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni en liðið mætir Wigan í dag. „Þetta er mikill léttir og mikilvægt að vita að við getum nú spilað við Wigan og vitað að þetta sé enn í okkar höndum. Ég er alltaf bjartsýnn og hef trú á mínu liði,“ sagði Eggert. Þrjár umferðir eru eftir í deildinni og er West Ham í næstneðsta sæti með 32 stig.

Sektin er sú langhæsta í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og sló met Tottenham frá 1994 er félagið var sektað um 193 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×