Nígeríumenn voru rétt í þessu að tryggja sér farseðilinn í undanúrslit Afríkukeppninnar í knattspyrnu með því að sigra ríkjandi Afríkumeistara Túnis í vítaspyrnukeppni. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1-1 og ekkert var skorað í framlengingu.
Meðal þeirra sem skoruðu fyrir Nígeríumenn í vítaspyrnukeppninni voru Obafemi Martins leikmaður Inter Milan og hinn margumtalaði Jon Obi Mikel hjá Lyn í Noregi sem átti frábæran leik. Nígeríumenn mæta annað hvort Kamerún eða Fílabeinsströndinni í undanúrslitum en sá leikur hefst kl. 17 í dag.
Í hinum undanúrslitaleiknum mætast heimamenn Egyptar og Senegal og verða þeir leikir háðir 7. febrúar.