Innlent

Ekki kemur til greina að taka upp vegtoll

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson MYND/Vísir

Hugmyndir um vegtoll um Suðurlandsveg eru algjörlega óásættanlegar að mati Björgvins G. Sigurðssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Tryggingafélagið Sjóvá vill endurbyggja Suðurlandsveg með tveimur akreinum í hvora átt og en forstjóri fyrirtækisins segir að jafnvel megi fjármagna framkvæmdirnar með vegtolli.

Þór Sigfússon forstjóri Sjóvá hefur sagt að félagið, ásamt nokkrum fjárfestum, vilja flýta tvöföldun Suðurlandsvegar. Víða megi finna dæmi þess erlendis að einkaaðilar og ríki taki saman höndum við viðlíka framkvæmdir. Þór telur að hugsa megi sér að ríkið greiddi eiganda vegarins veggjald af hverjum bíl sem færi um veginn, eða að vegtollur yrði innheimtur eins og við Hvalfjarðargöng. Málið hefur verið rætt við samgöngurráðherra.

Á núgildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að vegurinn frá Reykjavík til Selfoss verði þrjár akgreinar eða svokallað 2+1 fyrirkomulag. Ekki eru allir sáttir við það en Björgvin segir að umferðaröryggi kalli á það að vegurinn verði tvöfaldaður í áföngum en ekki farið í bráðabirgðaframkvæmdir til skamms tíma eins og 2+1 vegur sem svari alls þörfum umferðar á svæðinu. Björgvin segir að íbúum hafi fjölgað langt umfram spár. Nauðsynlegt sé að tvöfalda bæði fyrir íbúa á svæðinu og eigendur sumarhúsa á svæðinu sem skipti þúsundum. Hann segir að skoða eigi einkaframkvæmdir með opnum huga en ekki komi til greina að taka upp vegtoll þar sem um þjóðveg sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×